Áhugamannavísur eftir Philip Vogler

Áhugamannavísur eftir Philip Vogler

Athugið að Philip hefur ekki íslensku að móðurmáli og þýðir aldrei sjálfur á íslensku í vinnunni sinni heldur eingöngu á ensku. Enskan var einnig þungamiðjan í háskólanámi hans. Á hinn bóginn starfar hann oft með móðurmálsfólki á íslensku eða þýsku og hjálpar því að bæta textana sína. 

Oft hefur hann líka þakkað öðrum fyrir gagnrýni og ábendingar til að bæta vísurnar sínar. Frá því um áramót 2007/2008 fór hann að prófa sig áfram við að yrkja hefðbundnar íslenskar vísur með stuðlum og rími. Þessar vísur teljast nú í þúsundum en í byrjun voru mjög margar rangortar. Síðan hefur hann lært meira um hrynjandi og ljóðstafi, sérstaklega með því að fara eftir leiðbeiningum Ragnars Inga Aðalsteinssonar frá Vaðbrekku. Nú verða vísurnar iðulega réttortar en spanna frá því að vera illskiljanleg vitleysa í að vera svo góðar að þær eru prentaðar í blöðum, lesnar upp á samkvæmum eða birtar í kynningarefni. Hins vegar hafa þær ávallt verið Philip sjálfum fyrst og fremst til gamans og aldrei tilheyrt atvinnustarfsemi Lingua/Norðan Jökuls!

Birtist á vefi 
Fjallahjólaklúbbsins
í nóvember 2012:

Ég hafði rætt við konuna mína um hjólabrautir og hjólandi fólk. Svo sáum við samtímis til bíla á vegi og hjóls á stígi. Þá datt mér í hug að maður á hjóli myndi gleðjast yfir því að eyða orku en maður á bíl sjá eftir því að eyða orku.

Ef lít á hluti læri ég mest,

líf er góður skóli.

Mér finnst að eyða orku best

ef um ég fer á hjóli.

Hringhendar ferskeytlur sem birtust í þættinum Mælt af munni fram í Bændablaðinu 6. 9. 2012:

Veistu lamb að líður vor

með leik og þamb sem víðast?

Af fjallakambi kveður spor

þar kýst að ramba síðast.

Um þig varmt í vor ég tek,

vart þinn sjarm kann orða.

Í sláturfarm svo fjöldann rek

sem fæstir harma að borða.

Vísa birt í Vísnahorni Morgunblaðsins 29. 5. 2012: 

Garð-yrki

Það gefur margt við garð að fást

þú græðir meðan yrkir.

Að eigin blómi í orði að dást

eflir líf og styrkir.

Birtist í ársriti Garðyrkjufélags Íslands 2012:

Garðgáta

Snyrtilegt þeir sníða gat

sniðugir í garði,

snæða úr beri og sneiða um hrat,

snúa hægt frá skarði.

Vísbending um svar er rétt undir vísunni AÐ-ventu frá í desember 2011!

Mars 2012:

Hringhenda sem ég samdi su. 4. 3. 2012 á meðan ég gekk með fjölskyldufólki undir Vaðlaheiði:

Upp á heiði alla leið

áleit greiða og varla langa,

þar enga reiði, aldrei neyð –

því eftir beið svo lengi að ganga?

Desember 2011:

Stuttu fyrir aldamót vann ég með öðrum að því að stofna Félag ljóðaunnenda á Austurlandi. Yfir veturinn allrasíðustu árin hittumst við nokkrir félagar mánaðarlega á Egilsstöðum til að heyra og ræða ljóð hver annars á svokölluðum ljóðastundum. Á ljóðastund
í desember 2011 var jóla- og áramótaþema:

AÐ-venta

AÐ éta sig í jólastuð,

AÐ japla og endalaust AÐ hlakka,

vömb AÐ fylla verður puð,

AÐ velja handa fólki pakka.

(Vísbending vegna Garðgátunnar ofar á síðunni: Ef svarið sýnist þér óljóst, prófaðu að lesa vísuna upphátt og hugsa um hljóðin. Til að sjá að lokum hvort þú fannst rétt svar, getur þú fundið það allraneðst á þessari síðu!)

Eftirfarandi ferskeytlu sendi ég viðskiptavini í Skagafirði. Hér byggi ég á gömlum málshætti:

Glöggt við vitum gestsins auga,

getur fleira séð.

Um skynjun þess ei skulum spauga:

Skóginn sér OG tréð. 

 

  

 

8. til 10. 7. 2011 gekk ég með öðrum hjá Ferðafélagi Íslands um Haugsöræfi til Vopnafjarðar. Ferðin hét Í fótspor framfara enda um símlínurnar sem voru orðnar yfir 100 ára gamlar. Ævar Kjartansson guðfræðingur og útvarpsmaður leiðsagði enda tengdur Grímsstöðum. Þessi vísa varð eftir í gestabók Austara símhússins nema hvað ég hef síðan breytt annarri hendingu lítillega:

Viljir þú um veröld ganga,

vina þinna njóta einn,

heimur býðst við línu langa

laus við þrengsl og ávallt hreinn.

 

Svar við Garðgátuna: Sniglar